Ásbjörg Ísabella Magnúsdóttir
Ég hef einhvernveginn alltaf nóg að segja og get talað endalaust er mér sagt... en aldrei þó bara um eitthvað slúður og múður, ég virkilega get "talað". Ég er að verða 38 ára og er einhvernskonar listamaður. Ég byrjaði lífið á öfugum enda og þegar ég var tvítug var ég gift, tveggja barna móðir í bandaríkjunum. Tuttugu og fimm ára var ég fráskilin, einstæð þriggja barna móðir. Ég er núna tæplega fertugur unglingur með vottorð í leikfimi og bólu á nefinu því til sönnunar. Mér finnst allt gaman, nema það sem mér finnst leiðinlegt. Ég sem og spila tónlist og hef gert mjööööög lengi, ég teikna, djamma og sem svo meiri tónlist, hugsa, rökræði, flakka um heiminn og sem tónlist, svo hugsa ég meira. Ég hef oft pælt í sjálfri mér sem móður og mér finnst það kostulegt. Ég er ekki slæm móðir, ég er bara barn sjálf og mér reynist erfitt að taka þær ákvarðanir og ábyrgðir sem fylgja foreldrahlutverkinu. Dætur mínar tvær eru tæplega tvítug og tveggja og hálfs og þær eru dásamlegar... synir mínir eru sextán og þrettán ára og þeir eru líka dásamlegir - ég hlýt að vera það líka. Ég sem tónlistarmaður er sérvitur, virka fremur hrokafull og get verið merkileg með mig á köflum... en það er eingöngu vegna mikillar feimni. Þegar ég spila lögin mín upplifi ég mig sem algjörlega berskjaldaða og nakta á sálinni þannig að um leið og lagið er búið þá lokast ég aftur og hrokafulli karakterinn kemur á vakt. Ég sem manneskja er einstaklega ljúf og einlæg.