Forréttur = Frumsaminn brandari dagsins ´a la Bella. Þetta lag er eins og laukur - það lætur þig gráta af engri ástæðu.
Aðalréttur = Í framhaldinu býð ég upp á þessa vitleysu sem er í þann mund að fara að gusast út um heilann á mér og hingað inn. Mér dettur ýmislegt í hug eða þá það dettur á mig, hvort sem er þá dett ég allavega sjaldan í það. Ég er eitthvað sem myndi kallast sjálfskipaður og metnaðarfullur drykkju-wannabe. En þegar ég er drukkin titrar borgin, hún nánast skelfur - ég finn gólfið undir mér iða. Það gildir einu hvort ég er einsömul inni á baðherbergi einhvers pöbbsins, sitjandi á klósettinu að pissa, eða standandi yfir fullum hornsófa af fólki í partýum morgundagsins, ég reyti af mér hvern brandarann á eftir öðrum. Flestir verða órólegir við þetta og eiga erfitt með að átta sig á mér - en hlægja þó í annað. Sumir öskra af hlátri og ganga meira að segja svo langt að elta mig herbergjanna á milli til að vera viss um að missa ekki af einum einasta brandara. Fáir fatta grínið á bak við brandarann og enn færri ná að sjá línudansarann á bak við trúðinn - sauðinn undir úlfafeldinum. Það eru einungis þeir sem fá borgina til að titra. Svo lengi sem ég held mér yfirvegaðri og slakri þá stend ég af mér titringinn og slepp þar af leiðandi við þá andlegu garnaflækju sem honum getur fylgt. En yfir í annað - sauðir......ég er einn. Ég á átta bræður og eina systur, ég er elst. Mamma á þar sjö stykki slysaskot og pabbi afgang, ég er eina barn þeirra saman. Heill hópur af ættingjum þar. Ég er frábrugðin þeim öllum á allan hátt mögulegan og upplifði mig mjög mikið sem "svarta sauðinn" í hópnum sem barn. Árið - daginn - mínútuna sem ég áttaði mig á því að þetta væri bara alls ekki þannig - öðlaðist ég frelsi. Ég áttaði mig á því aðeins fimmtán ára gömul að ég væri í raun eftir allt "hvíti sauðurinn" í "svartra sauða" hópi - en ekki fyrr en tuttugu og átta ára að ég væri einnig "hvítur sauður" í "svartra sauða" heimi. Við erum ekki margir, svörtu sauðirnir, en við erum svartir. Við stöndum yfirleitt saman en oft getur verið villandi að greina á milli þeirra alsvörtu og hinna dökkgráu, flekkóttu og blesóttu.
Eftirréttur = Ég renni niður úlfagerfinu og anda að mér vorinu, horfi út fyrir virkið mitt og sé litlu, fallegu lömbin á kreik, alls ósmeyk við þann óleik sem bíður þeirra ef einhver gráðugur og grimmur úlfurinn fær að ráða. Þrjú stór tár leka niður sviðakjammann framan í mér og ég leggst tilneydd í rekkju, verð að hvíla mig eftir nokkurra daga flakk um túnin grænu - máttfarin ég gríp um höfuð mér og hvísla "ái ái - ég vil ekki sofna - hver mun þá passa litlu lömbin"
Geðveiki.....ekki satt? Eða hvað....?
Athugasemdir
Ekki svo mjög. Skemmtileg færsla og frjó skrif. Þú ert kannski soldið furðuleg en klárlega ekki geðveik.
Júdas, 13.4.2008 kl. 15:25
Flott síða hjá þér og vonandi gékk vel að taka upp um helgina og takk fyrir frábæra skemtun..
Kv Halli Holm
Halldor Holm (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 23:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.