PÆLING

Eftir 32 ár á vígvellinum lá ég fallin fyrir eigin sverði, löngu búin að gleyma við hvern ég barðist og af hverju, lá bara í forinni með sverðið á kafi í hjartanu og pældi, "að VERA eða EKKI VERA, það er spurningin". Er það spurningin? Hmm það læddist að mér hugsun, en að vera BARA. Hvorki að VERA né EKKI VERA, heldur að BARA VERA. Ég allt í einu áttaði mig á því að síðustu ár hafði ég geyst um vígvöllinn söðluð rugguhesti og vopnuð túttubyssu og pottloki. Mildi er að ég þraukaði þar allan þennan tíma innan um risavaxna fáka með verðuga, viljuga og vel vopnaða stríðsmenn á baki. Var vissulega bara svo mikið lægri að það tók enginn eftir mér, ég sást varla. Og þessir örfáu sem urðu við mig varir þarna niðri í forinni hlógu og hæddust að mér, hreyttu í mig óyrðum og hræktu. En ég í minni blindandi trú um verðugleika minn og getu hrökklaðist þarna um, snýtti mér í ermina og stóð vörn sem sókn, hnakkhreyst sem aldrei fyrr. Með pottloki varðist ég hnífsoddum og skaut mína andstæðinga baunaskotum með köldu blóði, hvergi hrædd. En þarna lá ég og staðreyndin "BARA VERA" sló mig utan undir sem blaut bleyja. Allur þessi tími, öll þessi barátta, þrautsegja, atorka og trú. Eins og blindur maður í bíó. Ég átti aldrei von, ég veit það fyrir vissu því ég svipti mig henni sjálf. Tel mig þó lánsama að hafa þraukað svo lengi og lifað af. Blauta bleyjan gaf mér annan löðrung og hann fékk ég fyrir að eiga eftir allt saman veglegt vopnabúr sjálf og brynjur fleiri en fimm. Ég stóð upp úr þessum drullupolli sem vígvöllurinn er orðinn að og losaði sverðið úr brjósti mínu. Það blæddi ekkert, ekki einn rauðasti dropi. Sverðið var gljáandi hreint og ég hélt því í höndum mínum furðu lostin. Kalt og þungt högg fékk ég í þriðja sinn frá blautu bleyjunni og sá þá um leið að ég hélt ekki á sverði, hafði ekki verið stungin og ég var ekki fallin. Ég hélt á minni eigin túttubyssu, búin með allar baunirnar og marbletti hér og þar því til skýringar. Ég lá aldrei fallin fyrir eigin sverði því ekkert var sverðið. Í undrun minni og gleði ég valhoppaði út fyrir vítateig stríðsins, með hor í nös og skít að eyrum, himinlifandi yfir þessari löngu tímabæru uppgvötun. Ekki mun ég aftur heyja stríð í blindni og vonleysi, aldrei mun ég aftur heyja stríð. En ef það kemur og sækir mig mun ég opna hlerann að mínu vopnabúri, byrgja mig vel og söðla stærsta fákinn minn. Þá mun ég berjast sem aldrei fyrr með verðugleika, virðingu og stolt í fararbroddi.

ÉG VIL EKKI BARA VERA - ÉG VIL VERA - ÉG ER !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ hæ Ásbjörg

Takk fyrir síðast ;) Vildi segja þér að ég á nokkur uppáhalds lög hjá þér sem ég án gríns set oft á hér í tölvunni og vildi bara óska að ég ætti disk með þessum lögum því hljómgæðin eru ekki uppá  sitt besta í þessari tölvu minni ;)

Vonandi finnur þú þér íbúð sem fyrst og vonandi fer einhver að gefa út lögin þín :) ég verð fyrst til að kaupa disk!!

Vona að ég fái svo einhvertíman tækifæri til að segja þér allt sem mig langar að segja þér ekki í gegnum tölvu.......

Hafðu það sem allra best og mér þykir alltaf vænt um þig og krakkana þína.

Hlín (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 11:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband