Hvað er maður að gera heima að blogga á laugardagskvöldi ? Maður spyr sig - en þegar maður spyr SIG er fátt um svör.....tja.....allavega ef maður vissi það þá væri maður ekki að spyrja sig - svo maður getur aldrei svarað sér. Héðan í frá er ég hætt að spyrja mig, mér finnst það kjánalega tilgangslaust og þetta orðatiltæki er jafnframt eitt það heimskulegasta sem fyrir finnst - að mínu mati. En, hvað um það.
Ég er sem stendur að taka upp nýjasta lagið mitt og það gengur sæmilega. Annars er ég komin með nóg af þessu fyrir daginn í dag og baðið mitt bíður eftir mér ásamt hrúgu af fötum sem ég þarf að gramsa í gegnum og velja úr fyrir kvöldið. Það er ekkert djók skal ég segja ykkur.....of mikið úrval og svo er ég að hallast að því að ég sé haldin einhvernskonar valkvíða. Ég virðist eiga einstaklega erfitt með að velja úr þegar það er of margt í boði. Það minnir mig á það að í nokkra mánuði eftir að ég fluttist til Bandaríkjanna (1997) var ég í stökustu vandræðum með að velja mér brauð til að kaupa þegar ég fór að versla. Það voru örugglega kílómetra langar og margra hæða vöruhillur fullar af brauði og ég var stundum upp undir hálftíma bara að velja eina fjárans brauðtegund til að kaupa. Allt of mikið úrval og það gerði mér fáránlega erfitt fyrir.
En bæ í bili.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.