Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
Bloggar | 21.4.2008 | 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Forréttur = Frumsaminn brandari dagsins ´a la Bella. Þetta lag er eins og laukur - það lætur þig gráta af engri ástæðu.
Aðalréttur = Í framhaldinu býð ég upp á þessa vitleysu sem er í þann mund að fara að gusast út um heilann á mér og hingað inn. Mér dettur ýmislegt í hug eða þá það dettur á mig, hvort sem er þá dett ég allavega sjaldan í það. Ég er eitthvað sem myndi kallast sjálfskipaður og metnaðarfullur drykkju-wannabe. En þegar ég er drukkin titrar borgin, hún nánast skelfur - ég finn gólfið undir mér iða. Það gildir einu hvort ég er einsömul inni á baðherbergi einhvers pöbbsins, sitjandi á klósettinu að pissa, eða standandi yfir fullum hornsófa af fólki í partýum morgundagsins, ég reyti af mér hvern brandarann á eftir öðrum. Flestir verða órólegir við þetta og eiga erfitt með að átta sig á mér - en hlægja þó í annað. Sumir öskra af hlátri og ganga meira að segja svo langt að elta mig herbergjanna á milli til að vera viss um að missa ekki af einum einasta brandara. Fáir fatta grínið á bak við brandarann og enn færri ná að sjá línudansarann á bak við trúðinn - sauðinn undir úlfafeldinum. Það eru einungis þeir sem fá borgina til að titra. Svo lengi sem ég held mér yfirvegaðri og slakri þá stend ég af mér titringinn og slepp þar af leiðandi við þá andlegu garnaflækju sem honum getur fylgt. En yfir í annað - sauðir......ég er einn. Ég á átta bræður og eina systur, ég er elst. Mamma á þar sjö stykki slysaskot og pabbi afgang, ég er eina barn þeirra saman. Heill hópur af ættingjum þar. Ég er frábrugðin þeim öllum á allan hátt mögulegan og upplifði mig mjög mikið sem "svarta sauðinn" í hópnum sem barn. Árið - daginn - mínútuna sem ég áttaði mig á því að þetta væri bara alls ekki þannig - öðlaðist ég frelsi. Ég áttaði mig á því aðeins fimmtán ára gömul að ég væri í raun eftir allt "hvíti sauðurinn" í "svartra sauða" hópi - en ekki fyrr en tuttugu og átta ára að ég væri einnig "hvítur sauður" í "svartra sauða" heimi. Við erum ekki margir, svörtu sauðirnir, en við erum svartir. Við stöndum yfirleitt saman en oft getur verið villandi að greina á milli þeirra alsvörtu og hinna dökkgráu, flekkóttu og blesóttu.
Eftirréttur = Ég renni niður úlfagerfinu og anda að mér vorinu, horfi út fyrir virkið mitt og sé litlu, fallegu lömbin á kreik, alls ósmeyk við þann óleik sem bíður þeirra ef einhver gráðugur og grimmur úlfurinn fær að ráða. Þrjú stór tár leka niður sviðakjammann framan í mér og ég leggst tilneydd í rekkju, verð að hvíla mig eftir nokkurra daga flakk um túnin grænu - máttfarin ég gríp um höfuð mér og hvísla "ái ái - ég vil ekki sofna - hver mun þá passa litlu lömbin"
Geðveiki.....ekki satt? Eða hvað....?
Bloggar | 12.4.2008 | 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jamm og jæja.....þá er maður alveg kexaður......Homeblest - góð báðum megin. Ef ég á að líkja stöðunni í lífi mínu við eitthvað þá verður parísarhjól fyrir valinu.
Lífið er flakk um stóran skemmtigarð.....ég er búin að fara alveg í gegnum
dýragarðinn (var þar illa bitin af LJóni og nokkrum híenum),
grasagarðinn (fékk þar nokkur brunasár eftir brenninettlur) og
sundlaugagarðinn (rétt naumlega slapp þar frá drukknun) en er föst í
tívolígarðinum.
Það er meira að segja svo slæmt að ég er föst í parísarhjólinu. Það fer í hringi og stoppar svo með mig ýmist efst uppi eða alveg niðri.....aldrei fyrir miðju.
Ég er til dæmis búin að vera föst svolítið lengi núna niðri og hlakka mikið til þegar það byrjar aftur að hreyfast og ég fer aftur upp. Þar get ég þó andað að mér hreina loftinu og fylgst ótrufluð með fjöldanum. Það er reyndar svolítið kalt þar og einmannalegt en ég læt mig hafa það. Það sér mig enginn og ég er on the top of the world. En hérna niðri er heit skítamolla, múgurinn er alveg trylltur og þar sem ég er föst í sætinu á hjólinu geta allir séð mig og abbast upp á mig að vild. Ég vona að hljólið hleypi mér úr og fái fljótlega nóg af mér því ég er algjörlega komin með upp í kok af því. Mazeltov.
Bloggar | 5.4.2008 | 11:17 (breytt kl. 11:27) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þú sem birtist óvænt eitt miðvikudagskvöld fyrir stuttu á 3. hæð völundarhússins og fangaðir svo samstundis flöktandi athygli mína, horfðir óhræddur óhikað í augun mín - líkt og ég væri óbrotin og elskanleg........komdu aftur.
Komdu og faðmaðu mig, kysstu mig á kinnina og hrósaðu mér, ég er ekki lengur hrædd. Ég get ekki lifað lengur svona harkalega mótuð af lífinu að ég hræðist kærleika og hlýju, ég hræðist það sem ég þekki ekki, ég hræðist það sem hefur meitt mig og ég hræðist mest það sem tengist hjartanu mínu.
Þínu hjarta aftur á móti ætti ég í engum erfiðleikum með að tengjast......það myndi ég gera af sannri einlægni og í gegnum þá tengingu gæfi ég þér umhyggju, ást, skilning og allt það yndislega sem hjartað mitt hefur upp á að bjóða. En sú tenging nær bara aðra leiðina - frá mér til þín. Ég er hvergi smeik við að elska - en lamandi hrædd við að vera elskuð. Ég kann það ekki.
Sú þjáning - að vera elskaður ÞRÁTT FYRIR það hver maður er..........í staðinn fyrir að vera elskaður FYRIR það sem maður er - markar á endanum sára og neikvæða tilfinningartengingu við það að vera elskaður.
Ég er eingöngu snertanleg og særanleg í gegnum hjartað mitt. Þar geymi ég mikinn og dýrmætan fjársjóð - ómetanleg gull, glitrandi gimsteina og perlur fegurri en allt. Þar á ég líka endalausar uppskerur af tryggð, vinsemd, alúð og ást, dyngjur fullar af vilja, blíðu, samkennd og trú, tunnur nokkrar hlaðnar atorku, gleði og von en ég á eftir aðeins eina, litla kistu af trausti. Við hlið hennar er djúpt tómarúm þar sem eitt sinn stóðu kistur fullar af værð og vellíðan, sjálfsvirðingu, heilindum, heilbrigði og því dýrmætasta af öllu þessu - sakleysi.
Þú sem gafst mér traust þitt og vildir bara fá mitt í staðinn, þú sem bauðst mér fangið þitt til hvíldar og hlýju og þú sem af alvöru lagðir þig fram við að komast í gegnum varnarveginn minn........komdu aftur.
Bloggar | 2.4.2008 | 08:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Bloggar | 1.4.2008 | 06:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)